Að vinna bug á eigin fordómum

(Birtist fyrst í Markaðnum þann 4. nóvember 2015)

Frá og með mánudeginum, 2. nóv­ember, vinna konur í Evrópu launalaust til áramóta, eða næstu 59 dagana ef tekið er tillit til 16,3% launamunar kynjanna í álfunni. Á Spáni byrjuðu konur að vinna launalaust fyrir tólf dögum og á Íslandi hefst launalausa tímabilið þann 20. nóvember, eftir því hvaða hluta skýrslu um launamun kynjanna horft er til. 

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vakti athygli á þessu á Evrópska jafnlaunadeginum 2015, sem haldinn var í gær.

Nú eru liðin 100 ár síðan konur fengu kosningarétt. Það er óskiljanlegt að við séum enn þá að berjast við kerfisbundinn launamun, sama á hvaða tölu er horft. Allar tölur yfir núlli eru of háar. UN Women og fleiri benda í því samhengi á að ef fram heldur sem horfir þá muni það taka okkur 70 ár að ná fullu jafnrétti kynjanna. Þetta hefur margoft komið fram á jafnréttisráðstefnum hér á landi og erlendis.

Það er frábært að halda ráðstefnur til að vekja athygli á kerfisbundnu misrétti. En ég verð að viðurkenna að ég er orðin þreytt á þessu endalausa tali og mig er farið að þyrsta í aðgerðir. Það er ekki nóg að hittast til að ræða nýjustu tölfræðina og bíða eftir því að stjórnvöld taki í taumana. Hvað getum við sem einstaklingar gert?

Jafnrétti er sameiginlegt mannréttinda-, samfélags- og efnahagsmál. Kynjamisrétti er aðför að lýðræðinu. Það kemur skýrt fram í 65. gr. stjórnarskrár okkar. Þegar við mismunum á grundvelli kynferðis brjótum við gegn stjórnarskrárvörðum réttindum samborgara okkar.

Að horfast í augu við eigin kynjafordóma, sama hvaða kyn þú upplifir þig eða gagnvart hvaða kyni þeir birtast, tel ég vera eitt mikilvægasta skrefið í átt að jafnrétti. Að dæma konur fyrst út frá útliti og síðan út frá afrekum er algeng birtingarmynd fordóma. Að útiloka karlmenn frá jafnréttisumræðu er önnur. Til að útrýma kerfisbundnu misrétti þurfum við að útrýma persónubundnum fordómum. Við þurfum að hefja opinskátt og hreinskiptið samtal um eigin fordóma og mæta hvert öðru án dómhörku. Jafnvel þó við upplifum okkur fordómalaus, getum við þá ekki alltaf gert betur?