AÐ ELTAST VIÐ DRAUMINN (OG VITA HVENÆR Á AÐ HÆTTA)

Við frumkvöðlar lifum flestir eftir einni og sömu möntrunni: „Elta drauminn. Aldrei gefast upp!“ Við hösslum, hörkum og höldum ótrauð áfram. „Hænuskref“ segjum við í hljóði – „ekki gefast upp, þetta kemur allt á endanum.“ Oft höfum við rétt fyrir okkur. Oft er þetta erfiðisins og táranna virði og velgengnin er rétt handan við hornið. Handan við næstu stóru sölu. Handan við næstu vörusýningu. Handan við næsta mikilvæga fund.


Óttinn við mistök
Íslendingum virðist vera í nöp við mistök. Ef þú gerir mistök ertu aumingi. Ef fyrirtækið þitt fer á hausinn ertu lúser. Þetta leiðir af sér að íslenskir frumkvöðlar halda oft áfram miklu lengur en þeir ættu að gera. Þeir ausa tíma og peningum í verkefni sem eiga að fá að deyja. Stundum er velgengnin svo langt undan að það að halda áfram er hreint glapræði. Það gerir engum gott að halda lífvana fyrirtæki í öndunarvél. Það elur á áhyggjum og kvíða, ekki bara frumkvöðulsins heldur allra í kringum hann.Stundum eru þetta einfaldlega röng verkefni á röngum stað á röngum tíma. Stundum eru þetta hreinlega lélegar hugmyndir sem hafa verið illa framkvæmdar og skortir rétta fólkið í teymið. Frumkvöðlarnir vita oft innst inni að baráttan er töpuð, en þeir neita að gefast upp. Stoltið þolir það ekki. Það vill enginn vera lúser.


Velgengni verður ekki til á einni nóttu
Að baki hverri sögu um velgengni liggur sjaldnast beinn og breiður vegur endalausra grænna ljósa og góðra ákvarðana. Leiðin er hlykkjótt og hlaðin háum veggjum, óvæntum atvikum og jafnvel umsátrum. Enginn verður stjarna á einni nóttu, sama hvaða mynd fjölmiðlar reyna að mála fyrir okkur. Við þurfum að leyfa sjálfum okkur (og öðrum) að gera mistök. Rými til mistaka er ein mikilvægasta forsenda framfara. Vissulega geta mistökin verið dýr, bæði fjárhagslega og tilfinningalega, en þau verða að fá að lifa í sátt og samlyndi við velgengnina. Það er ógeðslega sárt að játa sig sigraðan. En stundum er það óumflýjanlegt. Í stað þess að lengja í snörunni verðum við að sætta okkur við aðstæður, taka skref aftur á bak og sjá hvað við getum lært af þessu. Loka einum dyrum og opna nokkra glugga nýrra tækifæra. Hætta, læra og halda svo áfram. Eitt skref í einu.

(Birtist fyrst í Markaðnum 8. janúar 2014)