ER EKKI KOMINN TÍMI TIL AÐ TENGJA?

Nýverið eyddi ég dágóðum tíma í Bandaríkjunum við uppbyggingu sprotafyrirtækis og tók meðal annars þátt í prógrammi sem er sérstaklega ætlað sprotafyrirtækjum í tækni. Á þeim stutta tíma sem ég varði þar í landi lærði ég sitthvað um uppbyggingu tengslanetsins, en um það hef ég áður fjallað á síðum Markaðarins. 

Eitt það fyrsta sem ég lærði við komuna til Bandaríkjanna var að taka alla fundi sem buðust. Jafnvel þótt um væri að ræða fjárfesta eða fagaðila sem ég vissi fyrir víst að væru ekki á því sviði sem við störfuðum. Stundum kom ekkert út úr fundunum, en iðulega fengum við tvær til þrjár kynningar þar sem viðkomandi sagði að við værum ekki á hans sviði en að hann þekkti einhvern sem við ættum að tala við. Taktu því alla fundi sem þér bjóðast – þú veist aldrei hvað kemur út úr þeim!
 

Undirbúðu tengslaviðburði vel
Ef þú færð boð á tengslaviðburð ætti það fyrsta sem þú gerir, eftir að hafa skráð þig á viðburðinn, að skoða gestalistann ef hann er opinber. Fylgdu á Twitter þeim sem ætla að mæta á og skoðaðu hvort þeir halda úti bloggsíðum eða eru áberandi í fjölmiðlum. Þannig slærðu tvær flugur í einu höggi; þú veist hverja þú þarft algjörlega að hitta á umræddum viðburði; og þú getur verið tilbúin/n með viðeigandi ísbrjóta. Skoðaðu líka Twitter-handföngin sem notuð eru í tengslum við viðburðinn og tístu einhverju daginn sem viðburðurinn er haldinn til að láta vita að þú mætir og til að auka líkurnar á því að aðrir gestir muni kynna sér þig fyrir viðburðinn.


Vertu alltaf með nafnspjöldin á þér
Að lokum vil ég nefna mikilvægi þess að vera alltaf (alltaf!) með nafnspjöld á þér. Ég hef í sakleysi mínu farið á veitingastað að hitta vinkonu og áður en ég veit af er ég búin að hitta fjölda fólks sem hefur áhuga á því sem ég er að gera og vill tengjast á Twitter og LinkedIn. Verandi með erfitt íslenskt nafn er ólíklegt að nokkur sem ég hitti muni muna hvað ég hét þegar heim er komið og því hverfandi líkur á því að þau fylgi mér á samfélagsmiðlunum án þess að vera með nafnspjald frá mér. Sem minnir mig á upplýsingarnar sem ættu að vera á spjaldinu. Nafn, titill, netfang og símanúmer eru staðall. En bættu líka við Twitter- og LinkedIn-upplýsingum þínum og fyrirtækisins.

(Birtist fyrst í Markaðnum 8. október 2014)