RITSTÍFLAN OG ÓTTINN VIÐ MITT SKAPANDI SJÁLF

Ég hef verið í átökum við sjálfa mig síðustu vikur. Ég er haldin mikilli sköpunarþrá en rekst á andlegar hindranir í hverju horni. Er með alvarlega ritstíflu og sama hvað ég reyni að hoppa yfir hana eða komast fram hjá henni þá miðar mér of hægt áfram fyrir mitt óþolinmóða sjálf. Hvað ætli valdi þessu? Er ég föst í raunveruleikanum? Hefur vinstra heilahvelið tekið yfir? Er kvóti á sköpunargáfu og kláraði ég minn þegar ég framleiddi listaverk eins og mér væri borgað fyrir það í myndmenntartímum í Ölduselsskóla á árunum 1989-1994?
 

Ekki láta raunveruleikann drekkja þér
Á meðan heilinn neitaði að skrifa eitthvað af viti ákvað ég að nýta hann í rannsóknarvinnu. Ég get kannski ekki skrifað, að minnsta kosti ekki eitthvað sem nokkur heilvita manneskja nennir að lesa, en ég get gúgglað út í hið óendanlega. Ég horfði á myndbönd og las greinar um sköpunarkraftinn og hvernig maður leysir hann úr læðingi. Eitt af þessum myndböndum fjallaði um hinn 100 ára gamla dansara, Eileen Kramer, sem dansar ennþá og þakkar það því að hún hefur alltaf leyft sér að vera skapandi. Hennar heilræði til yngri kynslóðanna: „Horfðu fram á veginn, vertu skapandi, ekki láta raunveruleikann drekkja þér.“ Þetta klingdi einhverjum bjöllum hjá mér. Gat verið að á síðustu árum, sem ég hef að mestu eytt í að byggja upp fyrirtæki, skrifa styrkumsóknir og útbúa fjárfestakynningar, hafi ég hreinlega leyft raunveruleikanum að ná yfirhöndinni og ekki leyft mér að staldra við á landamærum hins raunverulega og óraunverulega? Var ég orðin raunsærri en mér er hollt?
 

Höfuðáverkar og hægra heilahvelið
Nokkrum dögum eftir að ég horfði á myndbandið um Kramer hitti ég vinkonu mína sem hingað var komin til að taka þátt í listamanns-residensíu í nokkrar vikur. Hún sagði mér að fyrir tveimur árum hefði hún verið á svipuðum stað - haft mikla þrá til að skapa en ekki fundið leið til þess, sama hvað hún reyndi. Hún er menntuð og þjálfuð í listsköpun en varð fljótt svo upptekin af lífinu að hún gaf sér ekki leyfi til sköpunar. Það var ekki fyrr en hún lenti í bílslysi og fékk alvarlega höfuðáverka sem þetta breyttist. Núna er það henni svo líkamlega erfitt að nota vinstra heilahvelið að hún hefur engra annarra kosta völ en að vera skapandi, allan daginn alla daga. Auðvitað fylgja því gallar að eiga erfitt með fókus og rökhugsun, en þetta fékk mig til að sjá vísbendingu númer tvö. Getur verið að vinstra heilahvelið hafi tekið yfir hjá mér? Er ég skemmd af fjármálahugsun og stífri umgjörð styrkumsóknaheimsins? Er hægt að þjálfa heilann einhvern veginn til að gefa hægra heilahvelinu meira vægi en því vinstra? Það hlýtur að vera hægt. Einhvern veginn varð viðskipta-ég til eftir áralanga þjálfun í háskólanámi mínu.

Til að komast að því hvort þessi tilgáta mín stæðist leitaði ég aftur til Internetsins og fann þrjú mismunandi próf sem áttu að gefa mér svarið. Niðurstaðan var sláandi. Samkvæmt þessum háþróuðu vísindalegu netprófum nota ég hægra heilahvelið meira en það vinstra. Hlutföllin eru um það bil 65:35 skv. einu prófanna. Tilgátan féll og ég varð ennþá ringlaðri. Ef ég nota hægra heilahvelið meira, hvers vegna finnst mér ég þá vera föst í lógískri hugsun og ófær um sköpun? Getur verið að vinstri heilinn hafi búið til tálsýn um að hann sé sterkari en sá hægri? Svipað og minnihlutaflokkur sem kemst í ríkisstjórn. Hvers vegna hefur það tekið mig rúma tvo mánuði að skrifa þennan pistil fyrir Pressuna?


Óttinn og sköpunarkjarkurinn
Með þessar upplýsingar í farteskinu (sem mér fannst þó ekki hafa komið mér áfram í leitinni að uppruna ritstíflunnar miklu) ákvað ég að leita í prógramm sem ég hef verið í í nokkra mánuði sem kallast The Artist’s Way. Því fylgir hin daglega rútína að skrifa morgunsíður (u.þ.b. þrjár blaðsíður, handskrifaðar) þar sem ég skrifa niður allt sem kemur í hugann. Hvað ég ætla að gera í dag, ekki gleyma að skipta um ljósaperu í lampanum í svefnherberginu, fara út með ruslið, sækja um nýtt vegabréf, hvert stefnir líf mitt, af hverju get ég ekki skrifað og så videre. Ég þarf líka að fara á vikulegt stefnumót með mínu listamannssjálfi og gera æfingar í hverri viku sem fylgja bókinni. Morgunsíðurnar og stefnumótin hafa gengið vel og ég hef til dæmis fundið innra með mér auga fyrir ljósmyndun og enduruppgötvað ánægju mína af því að teikna. En sama hvað ég hef reynt þá hefur þetta ekki hjálpað mér að skrifa meira, oftar, betur. Ég ákvað því, sem hluti af rannsóknarvinnunni, að fara aftur í upphaf bókarinnar og sjá hvort þar stæði eitthvað um sköpunarstíflur. Viti menn, svarið var þarna fyrir framan mig allan tímann. Þegar við erum föst einhvers staðar í lífinu þá er það oftast vegna þess að við erum öruggari þar. Við erum kannski ekki hamingjusöm á þessum stað, en við lifum allavega í vissunni um að við séum óhamingjusöm. Allt er betra en hið óþekkta. Við hræðumst óvissuna því við vitum ekki hvaða áhrif það mun hafa á okkur (og á aðra) ef við breytumst. Við ákveðum því að vera föst. Örugg. Þetta er ekki meðvituð ákvörðun heldur ómeðvituð viðbrögð við ótta. Ótta við að vera ekki nógu góð. Ótta við að gera mistök. Ótta við dómhörku annarra. Ótta við velgengni. Og þarna lá ástæðan fyrir ritstíflunni minni. Ég er hrædd. Hvað ef enginn nennir að lesa sig í gegnum þennan pistil? Hvað ef fólki finnst ég vitlaus að reyna einu sinni að skrifa. Hvað ef þessi pistill er stórkostlegt listamannslegt afrek, fær 50.000 læk og deilingar og ég þarf að halda áfram að skrifa góða pistla?

Því meira sem ég hugsa um þetta því betur sé ég hvað þetta er fjarstæðukennt. En það er einmitt málið við ótta. Hann byggir ekki á rökhugsun. Mér varð hugsað til viðburðar sem ég fór á um daginn þar sem talað var um sköpunarkjark. Margt af því sem við fáumst við í lífinu krefst kjarks. Að panta tíma hjá tannlækni þegar þú veist að þú ert með skemmda tönn og skammast þín fyrir það af því þú varst löt að bursta í nokkrar vikur. Að hoppa í sjóinn af klettinum í Nauthólsvík og finnast það alltaf jafn erfitt þrátt fyrir að hafa gert það nokkrum sinnum. Að játa ást sína í fyrsta sinn. Að skrifa niður hugsanir sínar með kjark og ást að leiðarljósi í stað dómhörku og skammar. Núna veit ég hvað ég þarf að gera. Það verður ekki auðvelt og það mun eflaust taka tíma að koma næsta pistli á blað, en ég veit að minnsta kosti að ég hef allt sem til þarf. Ég þarf bara að komast yfir hræðsluna við að þú dæmir mig. Því það skiptir í raun ekki máli hvað þér finnst. Það eina sem skiptir máli er að ég hafi kjarkinn til að skila frá mér lélegu verki því ég veit að það er stór þáttur í vexti mínum sem listamaður. Þessi pistill var kannski misheppnaður, en það að ég hafi skrifað hann eykur líkurnar á að næsti pistill verði góður.

„Það eru aðeins tvö mistök sem við getum gert á vegferðinni til sannleikans: að fara ekki alla leið og að byrja ekki.“ - Búdda

(Birtist fyrst á Pressunni þann 30. mars 2015)