STOLTENBERG STOPPAR EKKI Á RAUÐU LJÓSI

Í síðustu viku sat ég á skrifstofu minni í gamla Gasstöðvarstjórahúsinu við Hlemm, horfði dreymandi út um gluggann og fylgdist með skemmtilegum litbrigðum tilverunnar. Þar sem ég sat þarna og horfði út um gluggann blasti skyndilega við mér diskóljósadýrð lögreglubíla og mótorhjóla og svört bílalest lagði við Utanríkisráðuneytið. Um það bil klukkustund síðar, þegar ég var á heimleið, festist ég á gatnamótum Flókagötu og Snorrabrautar í tæpar fimm mínútur. Lögreglumaður sem þar hafði tekið yfir umferðarstjórnun leyfði eingöngu umferð um Snorrabraut í norður- og suðurátt. Ég var orðin óþreyjufull þegar ég sá blikkandi blá ljós og svarta bílalestin, sem ég hafði séð við Utanríkisráðuneytið fyrr um daginn, ók Snorrabraut í suðurátt. Tilgangurinn með þessu öllu saman var að koma í veg fyrir að Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, þyrfti að stoppa á rauðu ljósi. Því maður eins og Stoltenberg stoppar ekki á rauðu ljósi. Hann fer á milli staða á eins miklum hraða og hann getur. Inn á fund. Málin rædd. Út í bíl. Búmm, beint á næsta stað.

Þetta fékk mig til að hugsa um rauðu ljósin sem fólk sem fæst við skapandi verkefni lendir oft og tíðum á. Veggina. Ritstíflurnar. Skortinn á innblæstri. Hræðsluna við að mistakast. Hræðsluna við að ná árangri. Hræðsluna við að vera ekki frumlegur. Hræðsluna við að vera of framúrstefnulegur. Óútskýranlega og lamandi hræðsluna sem drepur niður sköpunarkjarkinn þar til ekkert áþreifanlegt er eftir nema úturkrassaðar minnisbækur fullar af hugmyndum og hverfandi líkur á að þær muni nokkurn tímann verða að einhverju meiru en krassi í bók.


Hinn órómantíski vani

Á meðan ég skrifaði seinni hluta þessa pistils (ég byrja ekki alltaf á réttum enda) borðaði ég restina af páskaeggi sonarins sem ég fann inni í ísskáp. Sama dag horfði ég á nokkra þætti af House of Cards, tók til í ísskápnum (þar sem ég fann páskaeggið), braut saman þvott, póstaði einhverju sem mér fannst sjúklega mikilvægt, merkilegt og fyndið á Facebook, las grein um kynþáttahatur og lagði mig þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega þreytt. Allt til að forðast þá ógnvekjandi athöfn að setjast niður og skrifa. Metnaðinn hef ég en viljastyrkurinn kemur í agnarsmáum skorpum. Eins og sólin að vori á Íslandi. Af og til en samt eiginlega ekki nógu lengi til að hægt sé að njóta hennar. Hefði ég leitað til John Steinbeck með þessa áskorun mína hefði hann líklega sagt mér að viljastyrkur væri þessu máli mögulega óviðkomandi. Í dagbók sem hann hélt á meðan hann skrifaði Þrúgur reiðinnar sagði hann að vaninn virtist vera sterkara afl en viljastyrkurinn. Ef við gerum hluti aðeins þegar við finnum löngun til þess að gera þá, þá gerist ekki neitt, því ef við finnum minnstu afsökun til að gera ekkert þá gerum við ekkert. Þetta er einfaldlega spurning um að setjast niður og skapa á hverjum einasta degi.

 

Frumleiki er ofmetinn

Annar rithöfundur sem ég sæki innblástur til er Elizabeth Gilbert. Hún skrifar reglulega hvatningarorð á Facebook síðu sína og mér líður stundum eins og skrifunum sé beint til mín. Um daginn skrifaði hún lista yfir hvað skapandi verk þarf EKKI að vera. Hann er einhvern veginn svona: Skapandi verk þarf ekki að vera neitt sérstaklega gott eða merkilegt. Það þarf ekki að breyta heiminum og það er klárt mál að það þarf ekki að vera frumlegt. Það eina sem skapandi verk þarf að vera er lokið. Markmiðið er ekki að gera eitthvað sem hefur aldrei verið gert áður heldur eitthvað sem ÞÚ hefur aldrei gert áður.

Bre Pettis og Kio Stark tala á svipuðum nótum í The Culture of Done Manifesto. Þar segja þau að það að þykjast vita hvað við erum að gera jafngildir því að vita hvað við erum að gera, svo við eigum að sætta okkur við að við vitum hvað við erum að gera jafnvel þótt að við vitum ekki hvað við erum að gera og bara gera það. Þetta snýst ekki um að skila af sér fullkomnu verki heldur einfaldlega nógu góðu verki. Paul Valéry sagði að góð ljóðskáld lykju aldrei við ljóð heldur yfirgæfu þau. Þau taka ákvörðun um að nú sé komið nóg - að ef verkið eigi að eignast líf utan verndaðs heims listamannsins þá verði að hleypa því út þótt það sé ekki tilbúið. Því hvenær er skapandi verk raunverulega tilbúið? Er listaverk ekki einfaldlega í því ástandi sem það var þegar listamaðurinn ákvað að snúa sér að öðru?

Og nú er kominn tími til að ég yfirgefi þennan pistil. Ég geri það með það í huga að ég hef enga lögreglufylgd til að passa að ég stoppi ekki á rauðu ljósi á meðan ég skrifa þann næsta. Í amstri dagsins er mikilvægt að muna að vani trompar viljastyrk. Framkvæmd trompar frumleika. Við setjumst niður og sköpum eitt verk þangað til við ákveðum að snúa okkur að því næsta. Þetta gerum við burtséð frá því hvort að verkið er fullkomnað eða ekki, því eins og Salvador Dali sagði þá er fullkomnun ekki til og við höfum því ekkert að óttast.

(Birtist fyrst á Pressunni þann 30. apríl 2015).