Fyrstu skrefin

Allar hugmyndir fæðast ekki jafnar þegar kemur að styrkjum. Sumar hugmyndir eru styrkhæfar og aðrar ekki.
Þegar um styrki til nýsköpunar er að ræða er mikilvægt að hugmyndin/verkefnið feli í sér nýsköpun, hvort sem það er í vöru, þjónustu eða ferlum.
Hér má finna nánari skilgreiningu á nýsköpun.

Styrkumsóknaskrif eru tímafrek. Til viðmiðunar tekur það vana manneskju frá 40-80 klst. að skrifa umsókn í Tækniþróunarsjóð, eftir því hversu vel útfærð hugmyndin er og hversu mikið er til af gögnum. 

Áður en hafist er handa við að skrifa er nauðsynlegt að:
- Kynna sér úthlutunarreglur og skilyrði fyrir styrkveitingu. 
- Skoða umsóknarformið til að gera sér grein fyrir hversu viðamikið verkefnið er.
- Skoða matsblaðið sem unnið er eftir við mat á umsókn (ef aðgengilegt)
- Skoða rafræna formið sem skila þarf með umsókninni (á sérstaklega við um umsóknir í Tækniþróunarsjóð)

Gagnlegt getur verið að:
- Panta tíma hjá ráðgjafa hjá viðkomandi sjóði, fara yfir verkefnið og fá ráðleggingar um hvaða styrkur hentar (ef einhver).
- Tala við aðila sem hefur fengið styrk frá viðkomandi sjóði og fá ráðleggingar. 
- Ef hægt er að sjá eldri umsókn og matsblað þá getur það komið að gagni til að gera sér betur grein fyrir verkefninu framundan.

Mikilvægt er að:
- Gefa sér nægan tíma til að læra að þekkja umsóknarformið og uppbyggingu þess.
- Hugsa vel út í verkáætlun verkefnisins og raunhæfi hennar.
- Taka góðan tíma í að skoða fjárhagsáætlunina sem fylla þarf út og skilja hvað liggur að baki henni (á sérstaklega við um umsóknir í Tækniþróunarsjóð).

Við fyrstu sýn kann umsóknarformið að líta út fyrir að vera óyfirstíganlegt. Þegar svo ber við er gott að muna hvernig við borðum fíl - einn bita í einu.

Gangi þér vel!